Um Pjúsarafélag Íslands

Upphaf Pjúsarafélags Íslands má rekja aftur til ársins 1993 en þá var enn bernska þeirrar tækni sem tengdi alheiminn saman. Spjallrásir höfðu ekki haft eigin miðlara á Íslandi en Lára Stefánsdóttir einn stofnanda Íslenska menntanetsins frá því ári áður var ein þeirra sem barðist fyrir því að slíkur miðlari yrði settur upp hér á landi. Ástæðan var sú að í Kidlink samskiptaverkefninu var verið að nota spjallrásir til samskipta og dreymdi Láru um að íslenskir skólar gætu tekið þátt í slíkum verkefnum. Kidlink hefur verið áhrifavaldur í lífi margra Pjúsara. Á þessum tíma var Internetið ekki algengur miðill og tiltölulega fáir notuðu Netið til samskipta. Því voru ekki margir Íslendingar á spjallrásum yfirleitt þegar íslenskur spjallmiðlari opnað hjá Háskóla Íslands.

Nokkur framsýn ungmenni voru þó í hópi þeirra sem fyrst tengdust og notuðu spjallrásirnar heilmikið svo úr varð samfélag þeirra á spjallrásunum. Nokkrum sinnum leit Lára við og eitt kvöldið kvaddi hún með orðunum: Kúldrist nú og knúsist, partíist og pjúsist á #Iceland spjallrásinni á IRC. Grunlaus um þau gríðarlegu áhrif sem þessi magnþrungna setning átti eftir að hafa fór hún að sofa en ungmennunum framsýnu kom vart blundur á brá þessa nótt. Ingimar Róbertsson ungur piltur úr Mosfellssveit setti þessa gullnu setningu í kveðjulínu sína á spjallrásum þannig að í hvert sinn er hann hætti á spjalli birtist setningin og lifði þar af leiðandi áfram. Setningin varð uppspretta mikillar umræðu milli Láru, Ingimars og Tryggva R. Jónssonar um merkingu orðsins Pjús og hvað það væri að vera Pjúsari. Pjúsari er andheiti við orðið djúsari sem er skammarheiti. Pjúsari er líka blúsari ef út í það er farið. Pjúsari er lífsglaður og hamingjusamur í sínum tæknivædda heimi.

Ári síðar eða 1994 var haldin útilega þessara framsæknu ungmenna í Ásbyrgi helgina 15. til 17 júlí 1994. Þar var þjóðsöngur Pjúsara frumfluttur af Láru og Gísla Gíslasyni eiginmanni hennar. Lára hafði samið textann við lagið "Henry the VIII". Sönginn fluttu þau af góðri þúfu við undirspil segulbandstækis sem endurómaði í ægifögrum klettum Ásbyrgis.
Á staðnum var líka Pétur Þorsteinsson, einn helsti frumkvöðull að notkun Internetsins á Íslandi.Sat hann í garðstól og studdist við staf sinn á meðan á flutningi stóð og kímdi góðlátlega. Tryggvi Pjúsari mætti á staðinn í bol með einkennisorðum Pjúsara "Kúldrist nú og knúsist, partíist og pjúsist" og hefur síðan verið talinn Pjúsarafrömuður. Auk Láru og Tryggva var Ingimar félagsmaður, enda hafði hann haldið orðunum margfrægu á lofti, en aðrir komust ekki í félagið fyrr en löngu síðar, þrátt fyrir grátur og gnístran tanna.

Næstu fjögur árin var Pjúsarafélagið leynifélag, margir reyndu að komast í félagið en íðilpjúsararnir þrír voru þráir og hleyptu engum inn en þó munaði litlu að inn væri tekinn nýr Pjúsari eftir forvígslu árið 1997 í Kaupmannahöfn en þá áttu menn von á lokavígslu á fundi Kidlink í Lima í Perú ári síðar. Þá varð uppreisn af hálfu aðsóknaraðilans sem dró til liðs við sig Brasilíumenn, Bandaríkjamenn og fleiri, stofnaði síðan baráttufélag gegn Pjúsarafélaginu "The Nice Girls" sem Pjúsarar láta sem sé ekki til, enda er það ekki til.
Eftir þetta voru inntökuskilyrði hert af miklum mun og mönnum gert að sanna inngöngurétt sinn í Pjúsarafélagið með ósvífnum og óréttmætum hætti allt til dagsins í dag og þannig verður það um alla eilífð. Eftir inngöngu er reynslutími í ár og að því liðnu geta menn fengið fullgilt stöðuheiti Pjúsara sem er úthlutað á aðalfundi. Fullgilt stöðuheiti byrjar á bókstafnum eff og engin önnur stöðuheiti njóta sömu virðingar.

Starfssemi félagsins var lengi afar leynileg, svo leynileg að jafnvel félagsmenn vissu lítið um hana þar til snemma árs 1998. Þá var ákveðið að gera félagið sýnilegra til að hafa meiri áhrif í hinum tæknivædda alheimi enda vildu félagsmenn njóta unaðssemda hans ríkulega. Markmið félagsins voru loks gerð opinber og skrifleg og í framhaldi af því þótti eðlilegt að sækja um kennitölu til Þjóðskrár svo enginn myndi fara í grafgötur með tilvist félagsins eða stela margfrægu nafni þess. Til að drekkja þekkingarþorsta alheimsins um Pjúsarafélag Íslands var keypt lénið pjus.is þar sem upplýsingar skyldu settar inn um félagið.
Þann 27. mars 1998 fékk Pjúsarafélag Íslands skráningu í Þjóðskrá sem áhugamannafélag enda er flokkurinn "tækniunaðssemdafyrirbæri" ekki til í þjóðskrá því verður félagið að hlíta þeirri mjög svo alþýlegu flokkun, enda eru Pjúsarar umburðarlyndir gagnvart opinberum stofnunum sem hafa það að markmiði að skrá gögn í tölvu.
Á stjórnarfundi 1. maí 1998 var skipað í stöður af íðilpjúsurunum þremur. Ingimar var kjörinn framkvæmdastjóri, Lára forseti og Tryggvi formaður. 28. apríl 1998 eignast félagið sína fyrstu veraldlegu eign, forláta Pentium 60Mhz tölvu. Var sú vél hýst hjá Menntaskólanum á Akureyri, en sá skóli hefur fóstrað Pjúsara vel.
Alheimsopnun á vef Pjúsara var síðan 7. maí 1998. Þessi merkilega veraldlega eign fékk nafnið Búkolla (bukolla.pjus.is) þar sem allar alvöru tölvur tengdar hinum tæknivædda alheimi eru skírðar í höfuðið á kúm. Lénið pjus.is var síðan skráð hjá Internet á Íslandi 8. maí 1998 og hófst þar með nýr kafli í sögu félagsins.

Á sama ári var sett eitt íðilmarkmið félagsins en það felst í því að félagsmenn kaupi númeraplötur á bifreiðar sínar sem merktar eru pjus 1, pjus 2 o.s.frv. Rétt til pjús 1 hefur Lára, pjús 2 Tryggvi og pjús 3 Ingimar. Lögð var fram tillaga um að allir yrðu að eiga sama lit á bíl en það fékkst ekki samþykkt. Nýir félagsmenn fá síðan úthlutað númeraplötuumsóknarrétti um leið og þeir eru teknir inn í félagið.

Síðla sama árs eða 14. nóvember 1998 er tekinn inn nýr meðlimur í félagið, Dagný Reykjalín, eftir gríðarlegar eldskírnir. Meðal verka voru endalausar útlitshannanir á vef, þekkingarþol hennar var prófað, lundarfar, kímnigáfa, pjúsleg samstarfshæfni og margt fleira. Eftir reynslutíma fékk hún titilinn Fínpjúsari en gild starfsheiti Pjúsara eins og áður segir hefjast öll á F. Hafi félagsmaður annað félagsheiti er hann enn reyfapjúsari (sbr. reyfabarn) í félaginu. Annað langt og strangt inntökuferli hófst stuttu síðar er Sigurður J. Eggertsson fór að sækja hart eftir inngöngu. Fyrir hann voru lögð óendanleg tæknipróf, forritunarpróf, Internetpróf, sem og próf um lundarfar, kímnigáfu, fórnfýsi, pjúslega samstarfshæfni og skáldagáfu Á meðan prófunum stóð um vorið 1999 var Búkolla flutt til Skýrr hf. í Reykjavík. Seint um sumarið 1999 sannaði Sigurður endanlega pjúslega fórnfýsi er hann gaf Pjúsarafélaginu nýja tölvu, AMD-K6 166Mhz, sem tók þá við af eldri netþjóni félagsins. Fóru þá augu félagsmanna að líta til hans í æ meiri pjúslegri aðdáun enda er tæknidekur eitt af því sem allir Pjúsarar falla fyrir. Ævinlega er hægt að plata Pjúsara upp úr skónum með tækniundrum og þeir njóta þess til fulls.

Um mitt árið 2000 fær vefsíða Pjúsarafélagsins langþráða andlitslyftingu og var hún hönnuð af hinum eðla Fínpjúsara félagsins. Aðalfundur var afar leynilegur þetta árið og fór framhjá öllum félagsmönnum en ári síðar voru menn búnir að læra fundarboðin og þá var haldinn aðalfundur þann 29. nóvember 2001 á veitingastaðnum Ruby Tuesday í Skipholti í Reykjavík og þá loks var Sigurði hleypt í félagið með heitið meðpjúsari, sem er hvítvoðungsheiti Pjúsara enda ekkert F í því heiti. Fór hann með nokkrar drápur á aðalfundi sem endanlega sönnuðu Pjúshæfi hans. Á fundinum sem framkvæmdastjórinn stjórnaði var farið yfir helstu mál í rekstri vélbúnaðar félagsins, matast og gert mikið gaman. Njósnari var í gervi þjóns sem reyndi að byrla félagsmönnum salat. Það tókst ekki, allir borðuðu óhollt.

Í maí 2002 urðu merk tímamót í sögu Pjúsarafélagsins. Áskotnaðist félaginu fé og var því varið til endurnýjunar á netþjóni félagsins. Var það orðið tímabært vegna stóraukinnar nýtingar og fjölbreyttari verkefna félagsins bæði leynilegra og ljósra.